— Æviágrip —
Stefán Hilmarsson fæddist í Reykjavík 26. júní árið 1966. Foreldrar hans eru Guðrún Ægisdóttir og Hilmar Sigurðsson, en þau bjuggu aldrei saman. Frá níu ára aldri og fram á fullorðinsár bjó Stefán hjá móðurömmu sinni, Láru Gunnarsdóttur, í Mávahlíð 42. Hann á sex hálfsystkini.
Stefán hefur starfað að tónlist meira eða minna frá árinu 1986, sama ár og hann lauk stúdentsprófi frá Kvennaskólanum. Hann varð snemma tónelskur, en kom þó lítið nálægt tónlist á yngri árum. Stefán lét fyrst að sér kveða árið 1986, með hljómsveitinni Sniglabandinu. Árið 1987 söng hann lagið 18 rauðar rósir, sem náði vinsældum og um sama leyti nokkur vinsæl lög fyrir Sverri Stormsker, sem leiddi til þess að hann söng framlag Íslands í Eurovision árið 1988. Sama ár var hljómsveitin Sálin hans Jóns míns stofnuð, með Stefán í fararbroddi. Starfaði sú sveit með hæfilegum hléum í 30 ár og fyllir flokk langlífustu og vinsælustu hljómsveita íslenskrar tónlistarsögu.
Stefán hefur einnig sungið með fleiri sveitum í gegnum árin. Auk hljómsveitarstarfa hefur hann starfað með ýmsum listamönnum og mætti helst nefna samstarf hans og Eyjólfs Kristjánssonar, sem hófst með þátttöku þeirra í Eurovision árið 1991. Hafa þeir sent frá sér tvær plötur saman. Stefán hefur í gegnum árin sungið fjölda laga inná hljómplötur og í kvikmyndum, undir ýmsum formerkjum. Flest lög hefur hann þó hljóðritað með Sálinni, sem sendi frá sér fjórtán plötur og átti fjölmörg lög sem náðu lýðhylli. Þá hefur Stefán sent frá sér sex sólóplötur.
Stefán hefur frá fyrstu tíð látið að sér kveða sem höfundur og er í hópi afkastameiri höfunda s.l. áratugi. Skráð verk eftir hann hjá STEFi eru yfir 300 talsins. Jafnframt því að semja fyrir sig og sínar sveitir hefur hann samið fyrir fjölmarga aðra, t.a.m. Björgvin Halldórsson, Milljónamæringana, Eyjólf Kristjánsson, Pál Rósinkrans, Bjarna Arason, Stjórnina, Hljóma, Í svörtum fötum, Skítamóral, Írafár, Selmu Björnsdóttur, Friðrik Ómar, Sigríði Beinteinsdóttur, Margréti Eir og Regínu Ósk, svo einhverjir séu nefndir.
Árið 1995 tók Stefán þátt í uppfærslu LR á rokkóperunni Súperstar, hvar hann fór með hlutverk Júdasar. Árið 2003 var frumsaminn söngleikur Sálarinnar, Sól og máni, settur upp í Borgarleikhúsinu. Stefán hefur sex sinnum verið fulltrúi Íslands í Evrópusöngvakeppninni, ýmist sem flytjandi eða höfundur. Hann tók um tíma virkan þátt í starfi Félags tónskálda og textahöfunda, sat í stjórn um skeið, sem og í fulltrúaráði STEFs. Þá hefur Stefán setið í stjórn menningarsjóðs FÍH og verið formaður skólanefndar Kvennaskólans. Hann hefur hlotið ýmsar viðurkenningar, t.a.m. tvívegis verið útnefndur söngvari ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum og hlotið sömu verðlaun sem höfundur. Stefán hefur verið útnefndur heiðurslistamaður (2008) og bæjarlistamaður Kópavogs (2018).
Jafnhliða tónlistarstörfum hefur Stefán starfað við ýmislegt í gegnum tíðina, m.a. þýðingar fyrir kvikmyndir og sjónvarp og grafíska hönnun. Undanfarin ár hefur hann starfað hjá STEFi. Þá er Stefán með BA-gráðu í stjórnmálafræði frá HÍ.
Stefán hefur ávallt verið áhugasamur um íþróttir og lék á yngri árum fót- og handbolta með Val. Hann hefur stundað golf um árabil og hefur mikla ánægju af skíðaiðkun með fjölskyldu og vinum.
Stefán er kvæntur Önnu Björk Birgisdóttur (f. 1966), og eiga þau tvo syni, Birgi Stein (f. 1992) og Steingrím Dag (f. 2004). Árið 2023 bættist barnabarn í hópinn, Emanúel Dagur Birgisson.